Það var síðla árs 1917 sem ungur sunnlenskur bóndasonur lauk við að draga mynd af íslenskum burstabæ, umsveigðum birkigreinum og blómskrúði, undir yfirskriftinni: Drottinn blessi heimilið. Veggmyndin kom á markað nokkru síðar og sumarið 1918 kynnti Heimilisblaðið hana með þeim orðum að þrátt fyrir að höfundur hennar, Páll Jónsson frá Ægissíðu, hefði lítillar tilsagnar notið í dráttlist, væri myndin „einkar snotur“. Það eru orð að sönnu.
Páll Jónsson (1890-1943) kenndi sig jafnan við fæðingarbæ sinn, Ægissíðu í Holtum, en bjó sín fullorðinsár á Stóru-Völlum í Landsveit, kvæntur Sigríði Guðjónsdóttur sem þar var uppalin, og átti með henni 12 börn. Hann var sjálfmenntaður teiknari og málari og er einkum kunnur fyrir mynd sem hann málaði af upphafi Kötlugossins 1918 eins og það blasti við af bæjarhellunni á Ægissíðu sem einnig var prentuð á póstkort og víða fór. Á upphafsárum 20. aldar voru gerðir ýmsir munir með áletruninni Drottinn blessi heimilið en veggspjald Páls er fyrsta myndin af þessum toga sem naut almennrar útbreiðslu.
Páll valdi sem sýnidæmi um hið íslenska heimili reisulegan torfbæ með mörgum stofuþiljum undir burstum sem vísa fram á hlað. Slíkar burstabæjarmyndir hafa fyrir löngu öðlast sess sem táknmyndir um svipmót landsins fyrr á tíð. Efst í vinstra horni blaktir hið nýja þjóðartákn Íslendinga, hinn þríliti fáni sem öðlast hafði lagalegt gildi sem þjóðfáni 19. júní 1915. Í hægra horni er skjaldarmerki Íslendinga á tímum heimastjórnarinnar, hvítur fálki á bláum grunni. Skjaldarmerkið hlaut samþykki konungs 1903 en var aflagt árið 1919 og landvættaskjaldarmerkið tekið upp í þess stað, það skjaldarmerki sem Íslenska lýðveldið síðan gerði að sínu, í lítið eitt breyttri mynd, árið 1944.
Endurgerð Crymogeu á veggspjaldi Páls Jónssonar er í stærðinni 40×50 cm.