Slaufan í ár er fagurbleikur og skínandi blómakrans fléttaður úr þremur nýútsprungnum blómum. Kransinn samanstendur af vafningum sem vefjast um hvern annan og tákna þannig þá umhyggju og stuðning sem við njótum flest á erfiðum tímum. Styrkurinn felst í samstöðu okkar - saman erum við sterkari.
Hönnuður Bleiku slaufunnar 2024 er Sigríður Soffía Níelsdóttir. Verkefnið hefur persónulega þýðingu fyrir hana, en hún greindist með brjóstakrabbamein árið 2020.
Sparislaufan er gullhúðað, rósagyllt koparhálsmen í samlitri keðju. Hálsmenið er einstaklega glæsilegur gripur, stílhreinn en um leið djarfur. Hálsmenið kemur í fallegum gjafaumbúðum og er framleitt í takmörkuðu magni.
Starf Krabbameinsfélagsins er fyrir fólkið í landinu og rekið fyrir styrki frá almenningi og fyrirtækjum. Með þínum stuðningi náum við enn meiri árangri. Kynntu þér hvernig þú getur lagt þitt á vogarskálarnar í Bleikum október.
Hönnuður Bleiku slaufunnar í ár er Sigríður Soffía Níelsdóttir. Sigga Soffía er danshöfundur í grunninn og þekktust fyrir flugeldasýningar og blómlistaverk en hún hannar undir nafninu Eldblóm.
Hún er margverðlaunaður listamaður og flakkar óhikað milli listforma. Líkt og klifurplantan sem teygir anga sína víða teygir hönnun hennar sig allt frá dansi yfir í vöruhönnun með anga yfir í mat, flugeldasýningar, ljóðlist og nú skartgripi.